Erna Höskuldsdóttir | þriðjudagurinn 21. nóvember 2017
Nemendur á yngsta-, og miðstigi skokkuðu upp á Krummakráku/klett í haust í tómstund
Í markmiðsgrein laga um grunnskóla segir eftirfarandi ,,Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.“
Þetta er sú grein grunnskólalaga sem mestrar athygli nýtur, enda tiltekur hún allt það helsta sem hafa þarf í huga þegar starfað er í þágu grunnskóla. Markmiðsgrein laga um leikskóla er samhljóma ,,Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar.“
Haustið 2014 fór Ísafjarðarbær af stað með verkefni sem fékk nafnið Stillum saman strengi og miðar að því að bæta námsárangur barna í Ísafjarðarbæ. Menntun barna er samvinnuverkefni heimila og skóla og sýna rannsóknir að bestur árangur næst ef aðilar eru í góðri samvinnu. Ætlunin er þess vegna að bættur námsárangur gerist í samstarfi heimila og skóla.
Skólarnir hafa gert ýmsar breytingar hjá sér og leggja aukna áherslu á læsi í víðum skilningi. Börnin hafa t.d. tekið þátt í hverju lestrarátakinu á fætur öðru með aðstoð foreldra. Þó svo að lestrakennsla og einhver þjálfun fari fram í skólum bera foreldrar samt alltaf hitann og þungann af lestrarþjálfuninni.
Langflestir hafa lagt sig mjög vel fram og nú erum við farin að uppskera. Miklar framfarir hafa orðið síðustu ár hjá leikskólabörnum og aðdáunarvert að sjá það starf sem unnið er í leikskólum sveitarfélagsins. Niðurstöður Hljómprófa síðustu ára hafa verið mjög góðar, en HLJÓM-2 er greiningartæki, aldursbundin skimun sem er lögð fyrir til að meta hljóðkerfis- og málmeðvitund barna í elsta árgangi leikskólans í því skyni að greina þau börn sem eru í áhættu fyrir síðari lestrarerfiðleika.
Góður árangur sést einnig í grunnskólum. Nýjustu niðurstöður samræmdra prófa gefa okkur byr undir báða vængi, þar sem einkunnir nemenda í 4. bekk eru töluvert yfir landsmeðaltali, bæði í íslensku og stærðfræði. Einkunnir nemenda í öðrum árgöngum fara hækkandi og niðurstöðurnar sýna að okkar nemendur virðast vera ívið sterkari í stærðfræði en íslensku.
Þrátt fyrir að ástæða sé til að fagna góðum árangri í skólunum okkar megum við samt ekki sofna á vaktinni. Við þurfum öll að hafa samstillta strengi, fyrir börnin.
Margrét Halldórsdóttir,
Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs