Erna Höskuldsdóttir | föstudagurinn 10. mars 2017
Vinningshafar með kennurum sínum, Auðbjörg og Jónína Hrönn lengst til hægri
Anna úr G.Í, Íris úr G.B. og Auðbjörg úr G.Þ.
Auðbjörg Erna og Gréta Proppé
Stóra upplestrarkeppnin var haldin í Hömrum, sal Tónlistarskólans fimmtudagskvöldið 9. mars sl. Tólf nemendur úr 7. bekk á norðanverðum Vestfjörðum lásu sögubrot úr Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason og ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur. Auk þess lásu allir eitt sjálfvalið ljóð. Dómurum var vandi á höndum að gera upp á milli þessara frábæru lesara sem stóðu sig frábærlega. Úrslitin urðu þau Auðbjörg Erna Ómarsdóttir frá Grunnskólanum á Þingeyri sigraði, Íris Embla Stefánsdóttir frá Grunnskólanum í Bolungarvík hafnaði í öðru sæti og Lena Rut Ásgeirsdóttir frá Grunnskólanum á Ísafirði í því þriðja.
Dómarar þetta árið voru þau Baldur Sigurðsson, Anna Þ. Ingólfsdóttir, Heiðrún Tryggvadóttir og Kristín Ósk Jónasdóttir. Guðrún Birgisdóttir skóla- og sérkennslufulltrúi Ísafjarðarbæjar hélt utan um dagskrána, en Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir, sem hafnaði í 2. sæti keppninnar í fyrra, las inngangstexta. Skólalúðrasveit Tónlistarskólans lék nokkur lög í upphafi og sá um að koma öllum í rétta gírinn og skapa hátíðlega stemningu.
Við óskum öllum lesurum, kennurum og foreldrum til hamingju með þennan góða árangur.