Erna Höskuldsdóttir Erna Höskuldsdóttir | miðvikudagurinn 25. mars 2015

Árshátíð G.Þ. - jafnrétti og bræðralag

Perur að verða klárar í slagin
Perur að verða klárar í slagin
1 af 3

Fimmtudaginn 26. mars er Árshátíð Grunnskólans á Þingeyri. Fyrirkomulag er með hefðbundnu sniði þ.e. fyrri sýning sem hefst kl. 10:00 með þátttöku leikskólabarna. Nemendur mæta í Félagsheimili kl. 9:00. Boðið verður upp á ávexti í hléi. Seinni sýning hefst kl. 19:30. Nemendur mæta kl. 18:30 í Félagsheimilið. 10. bekkur verður með sjoppu í hléi.

Aðgangseyrir er 1500 kr. fyrir 16 ára og eldri. Grunn-, og leikskólabörn fá frítt.

 

Öll námstigin sýna ástsæla leikverkið Ávaxtakarfan eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttir. Verkið fjallar um viðkvæm málefni á borð við einelti og jafnrétti. Nemendur hafa komið verulega á óvart með leik, söng og sköpun. Hlökkum til að sjá ykkur öll á árshátíð.

Erna Höskuldsdóttir Erna Höskuldsdóttir | föstudagurinn 20. mars 2015

Sólmyrkvinn

"Hver er maðurinn/konan?" Horft í gegnum rafsuðugler
1 af 7

Í dag 20. mars var almyrkvi. Þetta var seinasti almyrkvi á sólu sem sést frá Evrópu til 12. ágúst 2026 og nýttum við því tækifærið hér í Grunnskólanum á Þingeyri til að gera okkur glaðari dag og bjóða til okkar gestum og gangandi til fylgjast með þessum stórmerkilega viðburði. Jón Sigurðsson okkar hér í skólanum er einn af félögum Stjörnufræðifélags Seltjarnarnes sem gáfu einmitt öllum nemendum í grunnskólum landsins sérstök gleraugu til að fylgjast með myrkvanum. Við nutum góðs af áhuga Jóns hér á Þingeyri þar sem hann sá um að stilla upp alvöru græjum til að fylgjast með myrkvanum og smita okkur af áhuga. Veðurútlit var sem best var á kosið og ekki hægt að segja annað að viðburðurinn hafi verið gleðilegur og krakkarnir eigi eftir að muna eftir honum þegar þau upplifa hann næst árið 2026. Nemendur í 10. bekk yljuðu okkur svo með súkkulaðisopa, kringlum og kleinum.

Erna Höskuldsdóttir Erna Höskuldsdóttir | mánudagurinn 16. mars 2015

Skíðaferð

"Á skíðum skemmti ég mér trall alla lla"

Á morgun 17. mars á að halda í skíðaferð til Ísafjarðar. Samkvæmt veðurspá á veðrið að vera gott.
Við hvetjum alla til að mæta með HJÁLM og á það bæði við um kennara og nemendur.   Skíðaleiga er í boði, allur búnaður á 1500 kr stakir hlutir klossar, skór, bretti eða skíði 1.000 kr.
Aðgangur er frír, lyfturnar eru komnar í gang um kl 9:30
Snjóþotur og sleðar eru leyfð í byrjendalyftu.

Við leggjum af stað frá skólanum um 08:15 svo við verðum klár öll sem eitt áður en lyfturnar opna. Sveitin verður sótt á leiðinni fyrir fjörðinn.
Við tökum mjólk með fyrir nestistímann, þau sem eru í hádegismat fá hádegismat. Við byrjum að gefa hádegismat um kl 11:30. ásamt því að við tökum ávexti með okkur. Nemendur mega taka með sér drykki ef þau vilja. Svo er bara að vera klædd eftir veðri og muna að hafa góða skapið með sér eins og ávallt. Við áætlum að leggja af stað heim ekki seinna en 13:15. 

Erna Höskuldsdóttir Erna Höskuldsdóttir | miðvikudagurinn 25. febrúar 2015

Enn ein lægðin

Spáin á hádegi 26. febrúar (mynd á vedur.is)
Spáin á hádegi 26. febrúar (mynd á vedur.is)

Vegna óvenju slæms skyggnis á morgunn vegna veðurs viljum við koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri. Við lokum ekki vegna veðurs nema algera nauðsyn beri til, þó svo að starfsemi skerðist vegna ófærðar. Komi til þess að með engu móti er hægt að halda dyrum stofnunar opnum vegna manneklu verður það tilkynnt. Við tilkynnum það hér á heimasíðuskólans ekki seinna en kl 07:30. Ferðir í sveitina eru teknar með tillit til veðurs og fer það fram á milli foreldra og skólabílstjóra. Það eru alltaf þið kæru foreldrar sem takið síðan loka ákvörðun hvort þið sendið börnin af stað eða ekki þegar veður er vont.

Erna Höskuldsdóttir Erna Höskuldsdóttir | mánudagurinn 16. febrúar 2015

Sólin og öskudagur

Við fögnum komu sólarinnar. Nemendur í 8. bekk buðu með aðstoð foreldra sinna og umsjónarkennara til "Sólarkaffis" í Félagsheimilinu sl. laugardag. Sólarkaffið er fyrir löngu orðið að hefð hér við skólann og sömu árgangar sinna ávallt því hlutverki og er upphafið að ferðasjóð. Nemendur þakka kærlega fyrir stuðninginn og notalega stund.

Öskudaginn 18. febrúar er stefnt á "Öskudagssprell" með nemendaráði og að því tilefni ætlum við að mæta í náttfötum í skólann (þeir sem vilja mæta í búning mega það).

Erna Höskuldsdóttir Erna Höskuldsdóttir | þriðjudagurinn 10. febrúar 2015

Tími þorrans

Nemendaráð með
Nemendaráð með "Hal og snót" 2015
1 af 6

Stormur og Þorri eru nú sennilega nánir bræður hér á Íslandi og undanfarna daga hafa þeir haft mikið að segja. Frostið er farið að bíta aftur og hver stormviðvörunin hljómar í fréttum viðtækja okkar. Við í skólanum látum það ekki á okkur fá og erum í óðaönn að undirbúa okkur fyrir lok vetrarannarinnar sem er nú í lok febrúar. Eftir það gerum við okkur klár í vorönnina sem byrjar á árshátíðarundirbúning og fleira tilheyrandi. Hér til hliðar má sjá myndir frá Þorrablóti G.Þ. sem haldið var á bóndadaginn sl. Halur og snót blótsins voru Sigurður Þorkell Vignir og Ásrós Helga. Allir skemmtu sér konunglega, borðuðu þorramat, tóku þátt í leikjum sem nemendaráðið sá um að skipuleggja og dönsuðu eftir blótið. Einnig reyndu flestir nemendur við að botna fyrriparta sem var mjög skemmtilegt og margir ágætis botnar urðu til.

 

Harðfisk, smjör og hangið ket

hef á mínum bakka

punginn upp í munninn set

bara til að smakka.

 

Kennarar og krakkar allir

kætast hér á góðri stund.

Sumar stundir þó mamma kalli

á lítinn svartan sætan hund.

 

Hillum bæði "hal" og "snót"

að hætti snjallra krakka.

Förum hér á mannamót

opnum þorrabakka.

Erna Höskuldsdóttir Erna Höskuldsdóttir | föstudagurinn 23. janúar 2015

ÞorrablótG.Þ. 2015

Þorrablót G.Þ.  verður haldið í sal skólans föstudaginn 23. janúar kl. 17:00 – 19:30 fyrir alla nemendur og starfsmenn skólans.  Borðhald hefst 17:30.

Verð er 200.-   á mann. 

Allir koma með sinn mat, a.m.k. tvær tegundir af Þorramat (og annað sem manni þykir gott) og drykk (gos).

Valin verða Halur og Snót kvöldsins.  Titilinn hljóta drengur og stúlka sem hafa mesta úrvalið af Þorramat og borða hann.

Nemendaráð sér um dagskrána á borðhaldinu og þau lofa spennandi dagskrá. 

Að borðhaldi loknu hefst diskótek í umsjón

dJ. Antons og dJ. Michaels fyrir alla gesti kvöldsins og stendur til kl. 19:30.  

-   Komum saman, skemmtum okkur og verum glöð. 

Nemendaráð og kennarar G.Þ.

Erna Höskuldsdóttir Erna Höskuldsdóttir | mánudagurinn 19. janúar 2015

Vegleg gjöf frá Höfrungi

Skólastjóri tekur við bókargjöfinni, yngsti meðlimur Höfrungs
Skólastjóri tekur við bókargjöfinni, yngsti meðlimur Höfrungs "afhenti" gjöfina :)
1 af 3

Föstudaginn 16. janúar fékk skólinn skemmtilega heimsókn frá fulltrúum Íþróttafélagsins Höfrungs. Formaður félagsins Sigmundur F. Þórðarson og meðstjórnandi Guðrún Snæbjörg Sigþórsdóttir ásamt yngsta meðlimi félagsins honum Sigþóri Örn Jörgensen færðu skólanum að gjöf nokkur eintök af bókinni Leikræn tjáning eftir Elfar Loga Hannesson. Bókin inniheldur fjölbreytar æfingar sem nýtast í kennslu í leikrænni tjáningu fyrir alla aldurshópa. Ásamt bókinni fylgir leiklistarnámskeið sem Elfar Logi höfundur bókarinnar mun koma og stýra fyrir alla nemendur skólans. Gjöfin er gefin skólanum í tilefni 110 ára afmælis Höfrungs 4. desember sl. Við þökkum þeim kærlega fyrir veglega gjöf og falleg orð til nemenda, kennara og skólans.

Erna Höskuldsdóttir Erna Höskuldsdóttir | þriðjudagurinn 13. janúar 2015

Stillum saman strengi - Annað lestrarátak

Lestrareðlan á yngstastigi elskar blá epli
Lestrareðlan á yngstastigi elskar blá epli
1 af 3

Annað lestrarátak skólaársins er nú hafið og stendur næstu fjórar vikurnar. Hver námshópur hefur valið sér "sérstök" óska viðfangsefni sem hópurinn vinnur að í sameiningu með því að vera dugleg að lesa. Áhersla er á lestur heima og í skólanum í 15 mínútur í hvert sinn. Í þessari viku ætlar Bogga að lestrarprófa nemendur aftur og eins í lok átaksins. 

 

Erna Höskuldsdóttir Erna Höskuldsdóttir | miðvikudagurinn 7. janúar 2015

Gleðilegt nýtt ár

Álfar á þrettándanum 2015
Álfar á þrettándanum 2015
1 af 4

Starfsfólk skólans óskar nemendurm, forráðamönnum og öllum velunnurum skólans gleði og gæfu á árinu sem er nú hafið. Skólahald hófst í gær og nemendur og kennarar eru saman að hrista af sér jólaslenið og hefjast nú strax handa við að vinna að markmiðum sínum. Vetrarönnin klárast í lok febrúar og því gott að renna yfir markmiðin í dagbókinni og nýta tímann vel. Bóndadagurinn er föstudaginn 23. janúar og planið er að halda Þorrablót G.Þ. (sjá skóladagatal hér til vinstri).

 

Vonum að allir álfar hafi komist til síns heima í gærkveldi og átt glatt og gott kvöldSmile

« 2024 »
« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Könnunin

Valdir tenglar

Vefumsjón