Heimsókn til Gámaþjónustunnar
MIðvikudaginn 21. október sl. fór "Meiriháttar miðstig" á Ísafjörð í heimsókn til Gámaþjónustu Vestfjarða að skoða hvernig flokkun sorps fer fram. Nemendur fengu að flokka plast frá pappír á færibandi. Þau fengu einnig að vita ýmislegt um flokkunarmál íbúa Ísafjarðarbæjar og nágranna byggðarlaga.
Það kom þeim á óvart að sumir henda í flokkunartunnur sínar því sem alls ekki á heima þar. Gámaþjónustumenn sögðu þeim einnig að það kæmi fyrir að mýs læðist með í ruslapokana, sérstaklega á haustin þegar kólna tekur. Fólk er nefnilega stundum latt við að fara alla leið í tunnuna með ruslapokana sína og setur þá fyrir utan dyrnar, þangað til það fer næst út. Þá er greið leið fyrir mýsnar að hoppa inn í pokana og fela sig þar og fá svo frítt far í tunnuna og þaðan í gámabíl og að lokum í flokkunarstöð. Nemendur spurðu margs og fannst allt rosalega spennandi nema kannski lyktin.
Við spurðum hvort að Þingeyringar séu duglegir að flokka en fengum það svar að þeir þurfi að taka sig verulega á í þeim efnum.
Í lok heimsóknarinnar fengu allir Prins Polo og Svala
Við þökkum Ragnari og félögum hjá Gámaþjónustunni kærlega fyrir móttökurnar