| þriðjudagurinn 21. apríl 2020

Skólahald frá 27. apríl

Samkvæmt nýjustu fréttum verður hertum aðgerðum aflétt frá og með 27. apríl næstkomandi. Mun þá skólahald vera með sama sniði og það var fyrir páska. Þ.e. nemendur yngsta stigs mæta kl 8:10 og eru til 12:10, þ.e. fara úr húsi þá, södd og sæl, eftir hádegismat og skemmtilegan morgun. Nemendur miðstigs mæta kl 12:40 og eru til 15:20. Athugið að þau, miðstig, munu EKKI borða í skólanum, en þau verða að koma með nesti eftir hádegi, en fá jafnframt ávöxt um tvöleytið, þ.e. þeir sem eru í áskrift. 

 

Unglingastig verður eins og það hefur verið, en munu mæta í skólann kl 13:30, 8.bekkur, 14:20, 9.bekkur og 15:10, 10.bekkur, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag. Athugið þessa breytingu frá því sem var. En eftir sem áður notumst við, við netsamskipti og nemendur hitta kennara á Slack á morgnana kl 10:00-12:00, alla virka daga. 

 

Mikilvægt er að allir virði tímann sem nemendur eiga að mæta, sem og að fara heim, til að koma í veg fyrir að hóparnir hittist. 

 

Ekki er orðið ljóst hvað tekur við 4.maí, en ég mun halda ykkur upplýstum um leið og ég fæ nánari útlistun frá yfirvöldum. 

 

Það verður frábært að fá aftur líf í húsið, þó svo með takmörkum sé. Munum samt eftir að fara varlega, og fara eftir fyrirmælum sóttvarnarlæknis, þetta er ekki búið.

 

Með bestu kveðju, Sonja Dröfn

| þriðjudagurinn 14. apríl 2020

Breyttar aðstæður

Eins og þið hafið orðið vör við þá voru hertar aðgerðir á Vestfjörðum fyrir páska og þær svo framlengdar til 26. apríl næstkomandi, eins og sjá mér hér. Nemendur mæta því ekkert í skólann næstu tvær vikurnar og sjáum svo til, hvaða tilmæli koma frá Almannavörnum eftir það. Óskandi væri að skólahald gæti þá hafist með hefðbundnum hætti, en líklegt er að svo verði ekki. 

 

Kennarar hafa nýtt daginn í dag, 14. apríl, til að undirbúa heimanám fyrir nemendur. Nemendur yngsta- og miðstigs fá poka á hurðarhúninn hjá sér, með námsefni. En einnig senda kennarar tövlupóst heim með nánari upplýsingum. Nemendur unglingastigs hitta kennara áfram í gegnum Slack og er þeirra skipulag líkt því sem var fyrir páska, nema þeir koma ekkert í skólann. 

 

Ég vil minna ykkur á, að hafa endilega samband við okkur, best að nota tölvupóstinn, ef þið hafið einhverjar fyrirspurnir. 

 

 

Með bestu kveðju, Sonja Dröfn

| föstudagurinn 3. apríl 2020

Páskafrí

Sæl

Nú erum við að sigla inn í páskafrí, kærkomið. Þetta hafa verið undarlegar vikur en saman höfum við komist í gegnum "allskonar". Nemendur hafa staðið sig mjög vel í breyttum aðstæðum, þó svo þau langi til að hafa allt venjulegt aftur, eins og við öll. Því miður verður ekki neitt "venjulegt" alveg strax þar sem samkomubann hefur verið framlengt til 4.maí. Því munum við halda áfram eftir páskafrí, eins og við höfum verið að gera. Hins vegar mun ég láta ykkur vita um allar breytingar, ef einhverjar verða. Þið megið því gjarnan fylgjast vel með tölvupóstum, sem og heimasíðu og fb-síðu skólans.

Vonandi hafið þið það sem allra best um páskana, getið ferðast um næsta nágrenni (sem og innanhúss). Munum bara eftir 2m reglunni og að hlýða Víði í einu og öllu.

 

Með bestu kveðju, Sonja Dröfn

| fimmtudagurinn 26. mars 2020

Vetrarfrí

Á morgun, föstudaginn 27. mars, er vetrarfrí í skólanum. Þó svo skólastarfið hafi farið á hvolf síðustu tvær vikur, þá höldum við vetrarfríinu inni, samkvæmt skóladagatali. 

 

Skólastarfið hefur tvímælalaust litast af aðstæðum í samfélaginu og tilmælum frá Landlækni. Skipulagið hefur tekið stöðugum breytingum og er nýjasta útspilið að nemendur unglingastigs eru nánast alfarið í fjarnámi en hitta kennara tvisvar á dag í gegnum fjarfundarbúnað, auk þess sem hver bekkur kemur einu sinni í viku til að hitta kennara. 

 

Nemendur miðstigs mæta í skólann eftir hádegi, frá 12:40-15:20 og hitta þá Sonju Elínu og Rakel eða Ninnu. 

 

Ég hef reynt að haga kennslu yngsta stigs þannig að það séu eins litlar breytingar og mögulegt er. Þau mæta á hefðbundnum tíma, kl 8:10 en eiga hins vegar að vera farin úr húsi kl 12:10. 

 

Einnig hef ég haldið mötuneytinu opnu fyrir nemendur sem koma og vonandi get ég gert það áfram. 

 

Ég vona að þið eigið ánægjulega helgi framundan og getið nýtt tímann í útiveru og samveru - þó með 2 metra bili á milli manna, eins og "þríeykið" mælir fyrir um ;-) 

 

Með bestu kveðju, Sonja Dröfn

| miðvikudagurinn 25. mars 2020

Breyting á stundaskrá !

Vinsamlegast skoðið vel nýjustu útfærslu á stundaskrá og mætingu nemenda á mið- og yngsta stigi:

 

 

Stundaskrá nemenda á yngra stigi. 26. mars – 3. apríl 2020

  • Nemendur mæta kl 08:10 og eru búnir kl 12:10.
  • Nemendur eru í mat kl 11:50. Mikilvægt að allir nemendur séu farnir úr húsi kl 12:15.
  • Á þessum tíma eru Kristín Björk og Guðrún Snæbjörg með þeim, þ.e. allan tímann og engir aðrir koma að bekknum.
  • Athugið að þetta er gert með öryggi allra í huga, nemenda sem starfsfólks skóla, og heimila.

 

Stundaskrá nemenda á mið stigi. 26. mars – 3. apríl 2020

  • Nemendur mæta kl 12:40 og eru búnir kl 15:20.
  • Nemendur eru í mat kl 12:40. Mikilvægt að allir séu ekki að koma fyrr en kl 12:40.
  • Á þessum tíma eru Sonja Elín, Nonni auk annars kennara með þeim, þ.e. allan tímann og engir aðrir koma að bekknum.
  • Athugið að þetta er gert með öryggi allra í huga, nemenda sem starfsfólks skóla, og heimila.

 

Með góðri kveðju, Sonja Dröfn

| mánudagurinn 23. mars 2020

Nemendur unglingastigs heima

Í ljósi aðstæðna þá hef ég ákveðið að draga enn frekar úr mögulegum samgangi nemenda. Frá og með deginum í dag og í það minnsta framyfir páska munu nemendur unglingastigs alfarið sinna námi heima. Þeir munu mæta einn dag, hver hópur, til að fá aðstoð frá kennara og námsgögn. Nánari útfærsla var send til forráðamanna í tölvupósti í morgun. Ef þið hafið einhverjar fyrirspurnir hafið þá samband við kennara, eða mig, á sonjahe@isafjordur.is.

 

Yngsta- og miðstig verður áfram í skólanum með óbreyttu sniði, í það minnsta í bili. En ég minni ykkur á að skoða þessa síðu, heimasíðu skólans sem og tölvupósta frá skólanum.

 

Sveitarfélögin eru að skoða útfærslu gjöldum fyrir hádegismat m.t.t. þess að einhverjir nemendur fá ekki fulla þjónustu sem þeir hafa greitt fyrir. Ég mun láta ykkur vita þegar niðurstöður liggja fyrir varðandi það. 

 

 

Með bestu kveðju, 

| föstudagurinn 20. mars 2020

Í vikulok

Þetta hefur verið undarlega vika, á þessum öðruvísi tímum. Við, eins og aðrir, reynum að gera okkar besta í þessum breyttu aðstæðum. Eftir tilmæli frá Almannavörnum var farið í að stokka upp stundaskrár nemenda, til að draga sem mest úr samneyti á milli hópa. Starfsfólk skólans hefur verið einstaklega jákvætt og tekið á sig ýmis konar verkefni, sem alla jafna eru ekki á þeirra herðum. Nemendur hafa sýnt stillingu og ró, tekist á við hvern dag eins og ekkert sé, líkt og það sé eðlilegt að staðan sé eins og hún er. Hins vegar finnum við vel að það örlar á titringi hjá sumum nemendum, en við leggjum okkur fram um að styðja þau, ræða við þau og leyfa þeim að tjá sig. 

 

Það er gleðilegt að segja frá því að nemendur yngsta stigs komu fram í sjónvarpsfréttum í tengslum við Fræ til framtíðar, sjá hér

 

Eins og staðan er í dag, þá verður næsta vika eins og þessi, þ.e. þessi breytta stundaskrá. En svo er vetrarfrí á föstudaginn, 27. mars, sem ég tel að sé kærkomið, mitt í þessu umróti. 

 

Við munum halda ykkur upplýstum, um leið og eitthvað breytist eða við fáum ný tilmæli frá Almannavörnum. Gott að fylgjast vel með þessari síðu, sem og fb-síðu skólans. 

 

 

Með bestu kveðju og góða helgi. 

| miðvikudagurinn 18. mars 2020

Snjómokstur

Snillingarnir okkar á unglingastigi tóku sig til í morgun og fóru um bæinn og mokuðu fyrir þá sem eiga erfitt með að gera það sjálfir. Snjó hefur kyngt niður undanfarna daga og nóg var af honum fyrir, þannig að þau höfðu nóg að gera.

 

Þegar þau voru búin að fara um bæinn fengu þau ís í sjoppunni í boði ánægðs bæjarbúa :-) 

| mánudagurinn 16. mars 2020

Næstu dagar

Sæl

 

Varðandi næstu daga:

 

- Byrjun skóladags:
- 1.-3.bekkur mætir kl 08:10
- 4.-7. bekkur mætir kl 08:20
- 8.-10.bekkur mætir kl 08:30
- Mjög mikilvægt að allir virði þennan tíma. Nemendur fara beint í sínar heimastofur. Heimastofa 8.-10.bekkjar færist niður og verður í "Ninnu" stofu. Nemendur í skólaakstri mæta á sama tíma, 8:10, þ.e. frá Múla og er skilað í GÞ. Svo kemur mið- og efsta stig saman.

 

- Fríminútur á yngsta stigi eru samkvæmt venju, kl 09:40, miðstigið fer kl 10:00. Efsta stigið er í sinni heimastofu í fríminútum.
- Hádegismatur verður samkvæmt eftirfarandi: yngsta stigið kl 12:10, miðstigið kl 12:30 og efsta stigið kl 12:45.
- Heimilisfræði fellur niður, en ég mun reyna að halda úti annarri verkgreinakennslu eins og kostur er. Áhugasvið og tómstund fellur niður, nemendur eru í heimastofum á þeim tímum.
- Einnig fellur niður öll kennsla í íþróttahúsi, semsagt íþróttir og sund. Kennsla fer fram í heimastofum eða úti.

 

- Breyting á stundaskrám:
- Yngsta stig er búið í skólanum alla daga kl 12:10, eftir hádegismat.
- 4.- 7.bekkur eru búnir í skólanum kl 13:20 alla daga.
- 8.-10.bekkur eru búnir í skólanum kl 14:00 alla daga.

 

- Vatnsbrunnum er lokað og verða nemendur að koma með vatnsbrúsa að heiman. Nemendur fá áfram ávexti en er skammtað af kennara.

- Ég minni á handþvott, oft á dag, með sápu. Spritt eru í stofum og er mikilvægt að nemendur séu sem mest sjálfbjarga í að þvo sér.

 

Einnig vil ég minna á mikilvægi þess að nemendur sem eru með kvef, hósta eða önnur flensueinkenni séu heima þangað til einkennin eru alveg horfin.

 

Við förum svona af stað út í vikuna, þangað til við fáum upplýsingar um annað. Það er mjög mikilvægt að fylgjast vel með tölvupóstum, heimasíðu skólans sem og fb-síðu.

 

En ég vil endilega benda á þessa frétt inn á ruv.is, af nemendum á yngsta stigi, algjörir snillingar :-) https://www.ruv.is/frett/laera-ad-raekta-graenmeti-i-skolum-fyrir-vestan

 

Með góðri kveðju,

| sunnudagurinn 15. mars 2020

16.mars - skólinn byrjar kl 10:00

Vegna aðstæðna munum við byrja kl 10:00 í fyrramálið. Starfsfólk þarf að undirbúa næstu daga eins og hægt er. Ég biðst afsökunar á því hversu seint ég læt ykkur vita, en það eru stöðugt að berast nýjar upplýsingar um skólahald frá Kennarasambandinu sem þarf að bregðast við. 

« 2025 »
« Apríl »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Könnunin

Valdir tenglar

Vefumsjón