Lóan er komin að kveða burt snjóinn
Lóan er ekki eini vorboðinn hér hjá okkur í Grunnskólanum á Þingeyri. Í dag komu fimm flottir vorboðar í heimsókn í skólann okkar ásamt foreldrum sínum. Þessir vorboðar eru nemendurnir sem hefja nám í skólanum næsta haust í fyrsta bekk. Skólastjóri og umsjónarkennari yngstastigs tóku vel á móti gestunum. Nemendurnir sýndu foreldrum sínum skólann en þau fengu sýnisferð og leiðsögn um skólann fyrr í vetur. Heimsóknin var ákvaflega skemmtileg og spennan sem fylgir skólagöngunni lág í loftinu sem er alltaf mjög gaman að finna. Hlökkum til að vinna saman næsta skólaár:)
Annars er allt á fullu þennan síðasta mánuð skólans. Í næstu viku hefst námsmat hjá öllum stigum og verður því nóg að gera sérstaklega hjá þeim sem eiga eftir óunna vinnu til að ná markmiðum sínum. Nemendur úr 10. bekk eru búnir að fara í skólaferðalag til Kaupmannahafnar þar sem nemendur skemmtu sér konunglega með kennaranum sínum Eddu Björk og Guðrúnu Írisi sem fór fyrir hönd foreldra. Nemendurnir vilja koma þakklæti til þeirra sem styrktu þau og tóku vel á móti þeim í fjáröflun þeirra fyrir ferðinni. Einnig eru þessir sömu nemendur búnir að sækja skyndihjálparnámskeið á Ísafirði ásamt því að undirbúningur fyrir úrslitakeppni í Skólahreysti er kominn á fullt. Úrslitin fara fram í Laugardalshöll 16. maí n.k.
Í maí hefjast líka útiíþróttir þar sem nemendur verða sýnilegri þorpsbúum í allskyns útileikjum og hlaupum. Huga þarf að öðruvísi fatnaði og nemendur fara áfram í sturtu eftir hvern tíma.
Ekki má svo gleyma þeim nemendum sem hafa hafið nám við skólann, en alls hafa síðan í febrúar 5 nemendur bæst við nemendafjöldan. Við vonum að þeim líði vel hjá okkur við leik og störf og bjóðum þá hjartanlega velkomna.