9. og 10. bekkir fóru í náms- og menningarferð til Reykjavíkur
Farið var að morgni miðvikudagsins 15. mars með “skólabíl” – 5 vaskir nemendur, umsjónarkennari og náms- og starfsráðgjafi. Leiðin lá til Reykjavíkur þar sem fara átti á Íslandsmeistaramót í iðn- og verkgreinum og framhaldsskólakynningar sem fóru fram í Laugardalshöll og eru til að sjá að það eru óþrjótandi möguleikar á því hvað maður vill gera í framtíðinni og leggja stund á. Hér má sjá smá myndband af hátíðinni. https://www.youtube.com/watch?v=xaOQnFG5Hyw
Þar sáu krakkarnir margt áhugavert og marga þátttakendur og þeir áhugasömustu kynntu sér margs konar námsframboð. Einnig var farið í Alþingishúsið og þar fengum við leiðsögn um húsið, fórum í Vísindasmiðju Háskóla Íslands og hittum Sprengju-Kötu og aðra efna/eðlisfræðinga sem sögðu okkur frá því hvað vísindi geta verið skemmtileg. Þar mátti líka fikta og prufa ýmislegt. Við fórum líka í Perluna á sýningu um lífríkið í fersku vatni á Íslandi.
En þetta var ekki bara námsferð, heldur brugðu krakkarnir sér á skauta í Egilshöllinni og við fórum líka í keilu á sama stað. Þar var sett upp keppni milli nemenda í G.Þ., nemenda í G.S. (en 9. og 10. bekkur Grunnskólans á Suðureyri fór líka í þessa ferð ásamt kennurum þar) og kennaranna í ferðinni. Þar skemmtu allir sér konunglega og sýndu ýmis tilþrif. Keppnisskapið tók sig aðeins upp og það var bara gaman. Síðan var haldið heim á leið upp úr hádegi á föstudeginum 17. og allir kátir og glaðir með ferðina.
En svona ferð kostar sitt og ekki hægt að fara í svona ferðir nema fá einhvers staðar styrki. Við vorum svo heppin að Artic fish styrkti ferðina um 100.000 kr. og erum við þeim mjög þakklát fyrir það. Gott að eiga góða að.
Margar myndir voru teknar í ferðinni til að varðveita minningar – og hér má sjá nokkrar þeirra.